Monday 8 July 2013

Au pair í Barcelona - Sigrún María

Sigrún María er tvítug Garðabæjarmær, hún hefur eytt seinasta hálfa árinu í Barcelona sem au-pair. Hér segir hún okkur söguna sína.
Ég útskrifaðist hálfu ári á undan af íþróttabraut í FG og var því planið alltaf að fara út og prufa eitthvað nýtt. Fyrst ætlaði ég að vera au-pair í Lúxemburg en þegar mér var boðið að fara til Barcelona var ég ekki lengi að grípa tækifærið. Þar bý ég hjá vinafólki frændfólks míns svo þetta er fjölskylda sem ég hef þekkt lengi, sem mér finnst mjög mikill kostur. 

Ég hafði heyrt mikið um hvað Barcelona væri frábær borg, sjálf hafði ég aldrei komið þangað áður og því var ákvörðunin auðveldari. Borgin hefur heldur betur staðist allar mínar væntingar. Hún býður nánast uppá allt sem hægt er að bjóða uppá fyrir fólk á öllum aldri. Það er mjög auðvelt að rata í henni þar sem hún er á milli fjalls og fjöru og ekkert það stór. Margir hafa nýtt sér það að leigja hjól og hjóla um borgina því að það er svo auðvelt að fara á milli, nánast allt í göngufæri.

Ég bý í hverfi rétt fyrir utan Plaza Catalunya og Römbluna sem er aðal túristagatan. Mér finnst það mjög fínt því þar er ekki eins mikið um túrista og áreiti en samt er ekkert mál fyrir mig að komast niðrí bæ og auðvelt að rata.

Ef þú ert að fara í skoðunarferð er mjög mikið af gömlum byggingum, kirkjum, söfnum og fleira. Sjálf hef ég farið á Picasso safnið og La Pedrera sem er eitt af húsum Gaudí og garðinn hans Park Güell, en hans arkitektúr er þekktur fyrir að vera öðruvísi, enda var hann mikill frumkvöðull í arkitektúr, þá sérstaklega í Katalóníu. 

Barcelona er þekkt líka sem mikil skemmtanaborg, mikið næturlíf og alltaf eitthvað um að vera. Spánverjanum finnst ekkert leiðinlegt að fá sér í glas. Fólk verður hissa þegar maður biður um vatn á veitingastöðum í hádeginu því þá eru allir byrjaðir að fá sér í siestunni. Þannig það er nóg um djammið hvort sem það er inní borginni eða niðri við ströndina.
Venjulegur dagur hjá mér var að vakna milli 7-hálf 8 og vekja krakkana. Ég er að passa þrjú börn, 5, 11 og 12 ára þannig það þarf voða lítið að hafa fyrir þessum eldri. Úti eru krakkarnir ekki eins heppin og hérna heima að fá heitan mat í hádeginu þannig á morgnanna hjálpumst við að útbúa nesti fyrir allan daginn. Skólar krakkanna eru allir í göngufæri þannig við löbbum saman í skólann. Þegar ég hef skilað þeim af mér tek ég lestina niðrí bæ í skólann minn. Var svo heppin að spænskuskólinn minn var alveg niðrí bæ þannig það var alltaf rosa mikið líf þegar ég var búin í skólanum. Oft settist ég niður með nesti eða kom við á stóra markaðinum (mæli hiklaust með að fara þangað) og horfði bara á fólkið haha svo ótrúlega margir og ólíkir menningaheimar á litlu svæði að ég gat oft skemmt mér við það. Svo eru krakkarnir sótt milli 4-5. Til að byrja með ætlaði ég að vera bara í hálft ár og fara í háskóla hérna heima næsta haust. Planið hefur aðeins breyst. Ég er búin að sækja um í háskóla úti þar sem ég ætla læra sálfræði. Fæ að vita það núna í júlí hvort að ég hafi komist inn. Það er náttúrlega draumurinn en á sama tíma mjög krefjandi þar sem námið er allt á spænsku! Ef það klikkar mun ég taka fjarnám í HA hérna heima. Ég verð sem sagt í allavega ár í viðbót eða eitt skólaár svo sjáum við til með framhaldið. Á þessu hálfa ári sem ég hef búið úti er ég búin að fara til Andorra á skíði, Sviss, Frakklands, Frönsku Alpana og Benidorm í útskriftarferð fyrir utan alla litlu bæina rétt fyrir utan Barca. Mér finnst það eitt það skemmtilegasta við að búa erlendis, hversu auðvelt það er að ferðast, hvort sem það er á bíl, lest eða flugvél því það er náttúrlega allt miklu ódýrara annað en að fljúga frá litlu eyjunni okkar. Ég náði líka að fara á Ísland – Frakkland í janúar þar sem úrstlitaleikirnir í HM voru í Barcelona og á tónleika með Justin Bieber og Beyonce sem var hreint út sagt geðveik upplifun, þá aðallega Queen B. Áður en ég kem heim ætla ég að vera búin að fara á leik með snillingunum í Barcelona, það er alveg möst að fara á leik þegar maður býr þarna, ég ætla líka á handboltaleik þar sem Nikola Karabatic er kominn í liðið og svo eru kirkjan fræga Sangrada Familia eitthvað sem maður verður að sjá. Svo er ég að lesa bók sem heitir Kirkja hafsins sem er skáldsaga um byltinguna sem átti sér stað og hvernig menningin var á sínum tíma og stendur þessi kirkja niðrí miðbæ, þannig mig langar ótrúlega að skoða hana vitandi alla söguna sem er á bak við hana.
Mæli hiklaust með að fara svona erlendis eftir útskrift ef tækifæri gefst, hvort sem það er sem au-pair, skiptinemi eða bara að læra nýtt tungumál og njóta lífsins. Maður er ekki að missa af neiiiinu hérna heima! Ég er ótrúlega spennt að fara aftur út og öðlast meiri reynslu og takast á við ný verkefni.


x Fanney, Þórhildur og Katla

No comments:

Post a Comment