Wednesday 10 July 2013

DIY armband

Við fórum í Föndru í gær og þá fékk ég þá hugmynd að gera armband þar sem ég hafði séð nokkur svipuð á netinu.
Ég keypti hring og þunn svört leðurlíkisbönd á aðeins 445 kr.

Ég byrjaði á því að klippa böndin niður í 5 búta, tvo 75 cm, tvo 50 cm og einn 25 cm.

Ég tók 75 cm bandið, lagði það saman og þræddi í gegnum hringinn til að festa það öðru megin. Endurtók þetta svo fyrir hinn endann á hringnum. 

Næst tók ég 50 cm bandið og lagði það undir böndin sem föst eru í hringnum. Hægri enda 50 cm bandsins tók ég síðan og lagði yfir miðjuböndin tvö og undir hinn enda 50 cm bandsins. Þar næst tók ég vinstri endann og þræddi undir miðjuböndin og í gegnum lykkjuna sem myndast hægra megin. Þessi aðferð er síðan endurtekin fyrir vinstri enda 50 cm bandsins, aðferðinni er haldið áfram sitt á hvað, hægri, vinstri, hægri, vinstri...... þangað til hnútarnir eru orðnir nógu margir. 



Þegar hnútarnir eru orðnir nógu margir tók ég nál og gekk frá endnunum með því að þræða þá á bakhlið armbandsins.

Ég myndaði hring úr armbandinu og notaði afgangs bönd til að halda hringnum saman tímabundið. Næst tók ég 25 cm bandið og kom því fyrir undir mitt armbandið og endurtók hnútaaðferðina hér að ofan. 

Næst losaði ég böndin sem héldu saman hringnum og gat eftir það ákveðið stærð armbandsins. Að lokum batt ég hnúta á enda armbandsins.


Ég er nokkuð sátt með útkomuna!  

x Þórhildur


No comments:

Post a Comment