Wednesday 3 July 2013

Viðtalið - Silla Make Up

 Sigurlaug Dröfn Bjarnadóttir (Silla Make Up) er ungur förðunarfræðingur sem vert er að fylgjast með. Hún er 31 árs búsett á Álftanesi og er á mikilli uppleið í förðunarbransanum og er orðin ein sú eftirsóttasta í dag. Hún hefur mikið farðað fyrir myndatökur og model fitness o. fl. og var henni meðal annars boðið af sjálfri Ingrid Romero fitnessgoði að fara út til Los Angeles og farða fyrir stóra keppni þar í landi. Hún hefur verið að taka að sér einka- og hópkennslur með mjög góðum viðtökum og hefur m.a. verið að fara í stór fyrirtæki og kenna. Við fengum Sillu í stutt spjall.


Hver er Silla?
Silla er 31 árs gömul, hárgreiðslunemi og förðunarfræðingur. Ég er búsett á Álftanesi, er móðir og verðandi eiginkona.

Hvað ertu að gera í lífinu?
Akkúrat núna er ég í "semí" sumarfríi. Ég vinn á hárgreiðslustofunni Permu af og til og er svo á leiðinni til Spánar í frí með fjölskyldunni. Ég er búin að vera fullbókuð allar helgar það sem af er sumri í allskonar farðanir og verkefni og er einnig að taka að mér einkakennslur og hópa sem vilja læra að farða sig sjálf. Er einnig með lítið fyrirtæki sem heitir Glitter mottur á Facebook, það getið þið kynnt ykkur HÉR. Ég er að fara að gifta mig í haust svo að ég er líka á fullu að skipuleggja brúðkaup. :D

Hvenær áttaðiru þig á því að þú hafðir áhuga á förðun og að það væri það sem þú vildir gera?
Ég hef alltaf frá því að ég var lítil haft mjög mikinn áhuga á öllu sem viðkemur förðun en fór ekki í að læra það fyrr en 2010. Á þeim tíma var ég að vinna í Íslandsbanka og bankinn var svo góður við mig og leyfði mér að taka mér smá frí frá bankanum á meðan ég lærði förðun og kom svo til baka eftir námið. Eftir námið gekk framar vonum í þessum bransa og ég fann sjálfa mig í þessu þannig að ég ákvað að hætta í bankanum og fara á fullt í þennan bjútí bransa og lét annan gamlan draum rætast og skráði mig í hárgreiðslu í Iðnskólanum í Hafnarfirði.

Ertu með einhvern sérstakan förðunarstíl? Eitthvað sem þú gerir alltaf/gerir aldrei?
Ég er með ákveðin stíl já sem er kannski erfitt að útskýra en ég nota t.d. aldrei svart til að skyggja, sem mörgum stelpum sem ég mála finnst skrítið því ég held það sé bara einhver vani hjá stelpum að nota svart. Mér persónulega finnst fallegra að nota aðra liti og förðunin verður mýkri. Auðvitað nota ég það stundum en ekki svona í "týpískar" farðanir.

Hvar og hvenær lærðir þú förðun?
Ég lærði förðun árið 2010 í Airbrush and Makeup School sem Sólveig Birna snillingur er með.

Hvernig tókst þér að koma þér á þann stað sem þú ert á í dag í förðuninni? ss. koma þér á framfæri og annað slíkt?
Þegar ég var að klára skólann þá héldum við lokasýningu með Kiss í Kringlunni. Í því verkefni kynntist ég Nadiu Tamimi og út frá því byrjaði mikið og gott samstarf okkkar á milli. Við smullum strax saman og hún hafði svo óbilandi trú á mér og fékk mig í öll verkefni tengd Kiss. Síðan kynntumst við Arnold Björnssyni ljósmyndara og út frá því gerðum við rosalega margar tökur saman ásamt Guðrúnu Þórdísi á Kompaníinu. Svo byrjaði þetta bara að vinda upp á sig og kom mér á þann stað sem ég er á í dag. Ég segi alltaf að þetta sé allt Nadiu minni að þakka.

Hvernig reyndist ferðalagið til Los Angeles þér?
Ferðalagið til Los Angeles var náttúrulega þvílíkt ævintýri og æðisleg upplifun. Ég er að farða mikið í fitnessinu hérna heima svo að þetta var auðvitað brjálað tækifæri að farða fyrir stóra fitness keppni þarna úti.  Ég kynntist Ingrid Romero í gegnum töku sem við gerðum með henni hérna á Íslandi og út frá því kom þetta tilboð og ég gat ekki sleppt því. Ég fer klárlega aftur.

Núna ertu að taka að þér einkakennslur, segðu okkur aðeins frá því..
Ég var byrjuð að fá mikið af fyrirspurnum frá stelpum hvort ég gæti kennt þeim að mála sig fyrir ýmis tilefni og hafði stundum tekið það að mér, svona eina og eina. Ég ákvað svo bara að auglýsa það á Facebook síðunni minni og það hefur fengið æðisleg viðbrögð síðan þá. Ég er búin að taka að mér nokkrar einkakennslur og hópa og stefni að því að gera þetta allavega eitthvað áfram. 

Hvað er framundan hjá þér?
Framundan hjá mér er að halda áfram með litla fyrirtækið sem ég og kærastinn minn erum með. Fara í fríið auðvitað og svo bíða mín verkefni þegar ég kem heim tengd förðuninni. Skipuleggja brúðkaupið og bara halda áfram að njóta lífsins.  

Förðun og hár eftir Sillu.
Ég kynntist Sillu sjálf þegar hún farðaði mig í myndatöku fyrir Kiss fyrir um einu og hálfu ári og hefur hún verið í algjöru uppáhaldi hjá mér síðan þá. Örugglega flestir sem hafa verið að sitja fyrir hafa kynnst því að fara í smink og vera óánægðir með útkomuna. Ég hef lent því ófáu sinnum en ég kem alltaf sátt frá Sillu og það er ótrúlega góð tilfinning. Manni líður vel í tökunni sjálfri fyrir vikið og myndirnar koma betur út. Reynslan mín af henni er frábær og leita ég alltaf til hennar þegar ég fer í förðun fyrir ýmist myndatökur eða venjulega atburði í mínu lífi. Hér eru nokkrar myndir úr tökum sem hún hefur farðað mig fyrir.


Ég mæli hiklaust með henni, gullin að innan sem utan og gefur endalaust af sér. Smelltu HÉR til að kíkja á Facebook-förðunarsíðu Sillu. 


x Fanney

1 comment: